Sit og hlusta á veðrið enda ekki annað hægt. Það er brjálað! Veðrið hefur verið ansi villt á köflum síðustu daga og við ekki vongóð um að litla Ögnin okkar sé meðal vor. Við fluttum um helgina og að sjálfsögðu með kettina með okkur. Það gekk ágætlega. Betur með hana en hann Gný. Á laugardagskvöldið fóru þau út en hún hafði gert það nokkrum sinnum yfir daginn og alltaf komið aftur enda var henni farið að líða bara vel í nýja húsinu. Hann hinsvegar er svo mikil skræfa og var afar hvekktur þennan fyrsta dag. Þau fóru sem sagt í göngutúr og skiluðu sér ekki aftur um nóttina. Um morguninn hringdi nágrannakonan fyrrverandi og sagði Gný vera að snæða í rólegheitum hjá henni. Hann hafði sem sagt skilað sér alla leið aftur á gamla staðinn. En ekkert bólaði á Ögn og gerir ekki enn. Erum alveg miður okkar og höfum auglýst á Kattholtsíðunni og á Barnalandi. Finnst þetta svo ofsalega sorglegt og þori varla að hugsa um þetta mikið langt. Höldum að hún hafi byrjað að elta Gný en svo týnst af leið enda vita þeir sem þekkja að hún er ekki eins og kettir eru flestir. Æ litla skinn.
Annars líður okkur vel, ég er komin með æluna af að pakka upp enda tók nógu mikið á að pakka niður. Það fer afar vel um okkur, mamma fór í vinnustofuna sína og lét okkur sitt herbergi eftir. Það er í raun á við litla stúdíóíbúð, stórt og rúmgott með góðum skápum. Bladibla. Allavega, oft skipast skin og skúrir eða eitthvað svoleiðis. Knús á línuna
3 Comments:
Leiðinlegt að heyra með hana Ögn, ég skal hugsa til hennar og vona að hún skili sér heim.
Þetta er samt alls ekki óalgengt þegar maður er að flytja.
Vonandi hafið þið það gott á nýja staðnum!!!
Jólakveðja,
Eva.
Henni var "skilað" í gær og mikil ósköp vorum við ánægð :)
Yndislegt að Ögn skilaði sér!:)
Takk kærlega fyrir okkur um daginn. Mikið er hann Hrafnkell Númi mikið æði og algjör kúrukall, I like it!
Knús og kossar
Eva og co
Skrifa ummæli
<< Home