laugardagur, desember 29, 2007


Hélstu að ég væri bara farin fyrir fullt og allt? Neibb, hér er ég en hef barasta ekki gefið mér tíma í þetta afar áhugaverða blogg mitt. Kettinum var sem sagt skilað og hafa þau ekkert verið að flakka meira, þeim líður bara vel eins og okkur hérna í Skerjafirðinum.


Höfum haft það ofsa gott um jólin, borðað mikið og drukkið vel. Pakkaflóðbylgjan kom og við klóruðum okkur í hausnum yfir þessu öllu saman. Sonurinn fékk, sem og við, margt afar fallegt. Núna er ekki bara spennandi að opna sína eigin heldur var ég líka ofur spennt yfir hans gjöfum. Skrautið á pökkunum átti þó hug hans allan enda var hann orðinn ansi lúinn þegar við settumst til að rífa utan af gjöfunum. Litla skinn. Svo eru það bara áramótin eftir einhverja klukkutíma, ótrúlegt að það sé að koma 2008. Ekki nema 12 ár síðan ég klippti af mér ljósa síða hárið og setti í stutt hárið svartan lit með bleikum og bláum strípum. Smart. Já sæll!


Hafið það glimrandi á þessum tímamótum, bannað að hugsa of mikið um þessa klippingu mína fyrir þetta mörgum árum. Er búin að jafna mig. Eða þannig.

miðvikudagur, desember 12, 2007


Sit og hlusta á veðrið enda ekki annað hægt. Það er brjálað! Veðrið hefur verið ansi villt á köflum síðustu daga og við ekki vongóð um að litla Ögnin okkar sé meðal vor. Við fluttum um helgina og að sjálfsögðu með kettina með okkur. Það gekk ágætlega. Betur með hana en hann Gný. Á laugardagskvöldið fóru þau út en hún hafði gert það nokkrum sinnum yfir daginn og alltaf komið aftur enda var henni farið að líða bara vel í nýja húsinu. Hann hinsvegar er svo mikil skræfa og var afar hvekktur þennan fyrsta dag. Þau fóru sem sagt í göngutúr og skiluðu sér ekki aftur um nóttina. Um morguninn hringdi nágrannakonan fyrrverandi og sagði Gný vera að snæða í rólegheitum hjá henni. Hann hafði sem sagt skilað sér alla leið aftur á gamla staðinn. En ekkert bólaði á Ögn og gerir ekki enn. Erum alveg miður okkar og höfum auglýst á Kattholtsíðunni og á Barnalandi. Finnst þetta svo ofsalega sorglegt og þori varla að hugsa um þetta mikið langt. Höldum að hún hafi byrjað að elta Gný en svo týnst af leið enda vita þeir sem þekkja að hún er ekki eins og kettir eru flestir. Æ litla skinn.


Annars líður okkur vel, ég er komin með æluna af að pakka upp enda tók nógu mikið á að pakka niður. Það fer afar vel um okkur, mamma fór í vinnustofuna sína og lét okkur sitt herbergi eftir. Það er í raun á við litla stúdíóíbúð, stórt og rúmgott með góðum skápum. Bladibla. Allavega, oft skipast skin og skúrir eða eitthvað svoleiðis. Knús á línuna