þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Hverjum langar ekki í eina grimma skotbómu í jólagjöf? Eða rauðar leðurbuxur með útteknum rassi og lyklakippu í stíl? Jólin að koma og fullt af pælingum varðandi gjafir og þess háttar. Samt er bara enn nóvember en mér finnst þau samt svo ofsalega komin eitthvað. Whatta dilly yo?

Tók eftir einu bráðskondnu áðan, missti tvö stykki seríjós úr skálinni minn í morgun. Tók þau að sjálfsögðu upp og lagði á bréf. Er ég var að fara að henda bréfinu áðan sá ég að þau höfðu snarminnkað. Þ.e. orðin meira en helmingi minni! Eins og risastór O áður, svo blotnuðu þau í mjólk, þornuðu og urðu eins og lítil o á eftir. Já einfaldir hlutir sem þessi gleðja mitt hjarta, hló vel og lengi að þessu :)

föstudagur, nóvember 23, 2007


Er dottin í það og skammast mín ekkert. Farin að hlusta á jólastjörnuna og er að hugsa um að ná í jólaskreytingakassana upp á loft um helgina. Þetta er ágætis alltíblandi jólastöð en annars eigum við ógrynnin öll af jólalögum-gömlum sem nýjum. Dæmi: Tijuana Christmas, The Muppets, Christmas with the Big Ben Banjo Band (1958) og fleira og fleira. Svo eigum við náttúrulega allt þetta klassíska, Elvis, Belle and Sebastian og allt það. Einnig klisjuna, ekki má gleyma henni-virkar alltaf ;)

Hélt að fyrsti í aðventu væri á sunnudaginn en hann er ekki fyrr en í næstu viku. Set bara eitt og eitt upp og þá tekur enginn eftir því. B vill nefnilega ekkert upp fyrr en eftir 1.des... Og ef hann tekur eftir kassanum þá segist ég bara vera að skoða og þrífa.

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Ætti að vera að vinna í lokaverkefninu, allavega að finna vinnuheiti en í staðinn skoða ég marthastewart.com. Á að vera að skoða pappakassamál, sortera og jafnvel raða dóti í þá en þess í stað er ég komin langt fram í tímann eða alla leið til New York næsta sumar. Svo enda ég bara á því að snúa mér í hringi í stólnum og bölva þessu framtaksleysi í mér! Af hverju vinn ég ekki í réttum verkefnum á réttum tíma en fer ekki þess í stað fram og aftur? Þurfum að byrja svona fljótlega að pakka en planið er að flytja inn á mömmu aðeins fyrr (erum að fara að byggja einbýlishúsið okkar í Skerjó muniði). Kostirnir eru fjölmargir og þröngt búa svo alltaf sáttir. Það er reyndar ekkert svo þröngt hjá henni.

Verkefnin eru milljón en þó misstór. Að pakka er eitt gott, að finna dagmömmu er eitt vont, að vinna í lokaritgerð er eitt erfitt og að þvo þvott er ekki skemmtilegt lengur. Samt er allt gott og blessað og jólin alveg að koma til mín-segi engum en þau eru komin smá inn í mig ;)

föstudagur, nóvember 16, 2007

Nú notar maður öll tól og tæki til að reyna að redda sér. Nei ekki þannig ;)

En ef þú þið þeir hann hún eða þau sem lesa þetta þekkið einhverja dagmömmu, viljiði þá hafa samband asap laufeyosk@gmail.com. Erum pretty desperate hérna megin og verðum að fá pláss fyrir 1.mars! Annars þarf mamman bara að hætta að vinna og fresta skólanum...

miðvikudagur, nóvember 14, 2007


Það er svo skrýtið að þegar eitthvað hefur gengið erfiðlega og fer svo að skána, þá þorir maður ekki að tala um það. Ástæðan er sú að án undantekninga kemur bakslag um leið og maður hefur opnað munninn! Stundum þorir maður ekki einu sinni að hugsa um það...þetta er náttúrulega ekki beint hjátrú, frekar einhver snúin ofsahræðsla. Engar áhyggjur, það er ekkert alvarlegt í gangi en hef tekið eftir þessu sérstaklega síðustu mánuði og B líka, þorum stundum ekki að tala saman þegar vel gengur ;) Nei segi svona, ekki alveg svo gróft.

Undrabarnið okkar er í "svefnþjálfun" og gengur það alveg blússandi, sefur bara alla nóttina svona oftast eða vaknar kannski 1 sinni. Áður vöknuðum við mæðginin á kannski tveggja tíma fresti...pínku strembið. En núna er eins og hann sé orðinn óþolinmóðari á daginn...hlýtur að ganga yfir. Tennurnar enn og aftur, ohhh...

Hann er svo ofboðslega fullkominn að augun mín fara bara næstum því að leka við áhorf! Svo strýkur hann kannski mömmu sinni um vangann og hún lamast næstum. Unaður!

laugardagur, nóvember 10, 2007

Var búin að skrifa langa færslu um langrækni í gær en hún týndist. Það er bara gott en langrækni ekki. Öll erum við það einhvern tíma, þ.e. langrækin (oftast góð) en ég persónulega reyni að vera það ekki. Var að hugsa um að senda einni ljósmóður póst en hún sennilega bjargaði minni geðheilsu þegar ég "sat inni". Veit ekki af hverju, en langar til að hún viti hvað hún gerði fyrir mig. Langar líka til að senda póst á aðra, en veit ekkert hvað hún heitir. Hún er fífl og klárlega á röngum vettvangi.
Nóg um það.

Ef ég ætti milljónir þá myndi ég, fyrir utan að kaupa fleiri skópör, eyða dágóðri summu í matreiðslubækur. Ég á þær nú nokkrar fyrir en fer reglulega inn á amazon og slefa yfir þeim ófáum. Nigella var að koma með eina sem er afar freistandi. Hún heitir Nigella express og það er þetta express sem mig vantar þessa dagana. Hef ekki tíma í slow cooking en vill samt sem áður elda góðan mat. Fyrir nokkrum mánuðum ætlaði ég að setja mig á pöntunarlista í von um að einhver auðkýfingur myndi panta mig. Djók. Pöntunarlista fyrir þess bók, amazon notendur vita hvað ég á við, en hætti við. Langar mikið hana núna.

Jólin, ó jólin! Alveg smurning um að henda nokkrum seríum á víð og dreif og byrja að hlusta á jólalög-finnst bara allt í lagi að byrja snemma. Ekkert nema upplyfting og höfum við ekki bara öll gott af henni?

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Jei hugsaði ég þegar ég fattaði að CSI:Miami væri að fara að byrja. En þátturinn var ekki langt kominn þegar kjánahrollurinn gerði vart við sig. Var næstum því gengin út þegar Horatio situr líkt og hugsuðurinn við fætur Cristo Redentor. En ég lét mig hafa það, kláraði blessaðan þáttinn. Margt verra til en þetta svosum.

Litla stóra barnið mitt fær stóran bílstól á morgun og ég uppgötvaði að ég á eftir að sakna litla stólsins. Tíminn er svo fljótur að líða og svo stutt eftir af fæðingarorlofinu. Auðvitað verður fínt að komast aðeins út að vinna en því meira sem ég hugsa um þetta, því meira langar manni bara að vera heima áfram. Kannski er þetta vegna þess að ég veit að þessi vorönn á eftir að vera afar pökkuð, vinna og svo skóli en það verður gaman og gott þegar ritgerðin er komin í hús. Svo væri ég alveg til í að vera "bara" að gera ritgerðina, en þess í stað þarf ég að taka eitt annað námskeið og langt vettvangsnám. En jújú, ég er hlynnt góðu námi á vettvangi og æfingunni sem því fylgir.

Fyrst eru það jólin, svo má hugsa um allt hitt ;)