fimmtudagur, júlí 27, 2006

Jæja er að gera okkur klár-synd að búðir opni ekki fyrr en 11 sumar, hvað er málið með það?

En þar sem ég var að steikja kjúkling fyrir karrý samlokusalatið okkar þá datt mér í hug að henda einu góðu kjúklingasalati hingað inn. Stal þessu en betrumbætti frá Red Chili....

Salat

Kál(hvernig sem er (ég nota yfirleitt klettasalatsblöndu)
Paprika (gul t.d.)
Rauðlaukur
Gúrkubitar
Kirsuberjatómatar (mega vera aðrar tómattegundir)
Blandaðir ostar; peperoni og mexico og skornir í skífur (vel af þessu jömmí)
Parmesan shavings
--->salatinu raðað á disk, gaman að gera þetta soldið snyrtilegt ekki bara blanda bara saman í kássu 0
Hellið smá hunangs-sinnepsdressingu yfir.

Steikið kjúlla-einfaldast að steikja hann og hella smá soja yfir og pipar þegar hann er alveg að verða til. Einfalt og og gott bragð!

Hendið kjúlla yfir salat, svo sesamfræjum og loks SÆTRI sojasósu (ketjap manis)

Svo bara hakka þetta í sig!
Þetta er matarmikið salat en ofsa gott!

Jæja that´s all...skal ekkert vera að trufla ykkur meira
Adios!

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Bakið á mér fór í smá skrall á mánudaginn, ég veit væl væl en.... öll ráð eru vel þegin þar sem útilegan hefst á morgun! Ég er ekki vön svona bakeymslum en þetta er rugl, geng um eins og gömul kona og afar pirruð. Keypti mér ibufen-gel og dúndra svo inn á milli í mig verkjalyfjum. Kannski ætti ég að sleppa Baðhúsinu í dag?

Ferðaplanið er nokkurn veginn komið á hreint, Rvík-Akureyri og fyrsta nóttina þar. Svo Akureyri-Ásbyrgi og ein nótt þar. Þar á eftir brunað austur í Bakkagerði AKA Borgarfjörð Eystri og ein nótt í tjaldi þar plús tónleikar. Svo förum við suðurleiðina heim og tökum kannski eina nótt í Skaftafelli. Mikill hraði og mikið gaman enda fær samferðafólk mitt ekkert risafrí. En hver veit nema við brunum aftur í Ásbyrgi um Versló og hlýðum á Sigurrós ?? Spurning....

Bakráð takk, núna!

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Ég er svolítið sár út í RÚV og er að hugsa um að senda þeim annað email. Kannski svöruðu þeir mér ekki af því að ég skulda tvo gjalddaga, ég veit maður á alltaf að borga reikninga en ég er að þrjóskast með þennan. OK, borga hann núna. Djö.

Anyways, særindin eru ekki vegna afnotagjaldanna, nei ég er pirruð út af þeim ekki sár. Ef ég væri sár útaf þeim væri ég nú meiri pjallan og það er ég nú ekki. Nei, særindin stafa af öðru. Í síðustu viku skrifaði ég þeim og spurði hví þeir fjölluðu ekki að minnsta kosti einu sinni um Færeyjartúrinn. Sá túr er 5 daga stíf hjólakeppni, ca. 330 km hjólaðir og enginn á dópi. Já brósi vann í fyrra og varði titilinn núna. Það eina sem ég sagði var að ég skildi að þeir fjölluðu um Tour de France, enda sennilega erfiðasta heildaríþróttakeppnin sem fer fram ári hverju. En, af hverju ekki að skjóta því inn í að það eru 5 íslendingar að keppa í Færeyjum og ef ég má segja, þá hefði verið sniðugt að koma með þessar tvær fréttir saman. Þetta er ekki spurning um stolt, eða jú auðvitað spilar stoltið inn í en það er ekki aðal ástæðan. Skil bara ekki af hverju ekki er fjallað um íþrótt sem hey einhverjir samlandar eru að standa sig vel í og jafnvel vinna. En nei, golfið og það hvaða leikmenn Juventus er að selja er mun mikilvægara. Ekkert er eitthvað mikilvægara, bara hafa jafnt. Æ skiljú?

Það kom sem sagt einn "moli" á sunnudaginn í svona skjáfréttum helgaríþróttatímans: "Hafsteinn vann Færeyjatúrinn". Er viss um að margir viti bara ekkert um hvað þetta var.

Það mætti halda að ég væri voða bitur kona, eða ítölsk. Nei, alls ekki bitur og ekki ítölsk að ég viti til. Allt voða gaman. Á laugardaginn var gaman, allavega hjá mér enda finnst mér ofsa gaman að bjóða fólki í heimsókn. Svo er það bara Borgafjörður Eystri með smá ferðalagi þar í kring á næstu dögum. Ó hve glöð er vor æska....

laugardagur, júlí 22, 2006

Við ákváðum, þar sem við fórum ekki út úr bænum um helgina, að bjóða til smá gleðskaps í kvöld. Reyndar er risastórt Viðeyjarteiti líka en við landkrabbarnir höfum það bara gott hérna hjá okkur. Góðmennt og það þarf ekki að ferðast í ferju hingað. Þannig að, ef þú/þið eigið leið framhjá í kvöld endilega kíkjið við. Segið dyraverðinum bara leyniorðið sem er millinafnið mitt á dönsku.

Túrílú!

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Pólítíska hornið mitt-einföld sjónarmið en alveg að gera sig

Það vita kannski fáir að ég grét ásamt tugum milljónum annarra eftir kosningarnar í USA 2004. Hvað fór úrskeiðis veit ég ekki en þessi maður er að ná að pirra mína litlu sál svo ofsalega að ég þarf að fá að skrifa aðeins um þetta. Losa um skilurðu. Á mánudaginn var
G8 fundurinn í Sankti Pétursborg. Auðvitað var aðal umræðuefnið það sem er að gerast í Líbanon enda skal engan furða. En sáuð þið ræmuna þegar Blair og Bush eru að tala saman og míkrófónnínn er óvart á, enginn átti að heyra???!!!? Bush situr og lítur eins fíflalega út og vanalega og segir eitthvað um að til að þetta stoppi þarf Sýrland að binda enda á þennan SKÍT!! Já farin að tala bara eins og rappari. Alveg er ég þó viss um að góðir rapparar eru þúsund sinnum betur að máli farnir en þessi lortubúi. Oj hata hann og hans heimska andlit! Fyrir ekki svo löngu síðan var hann staddur í Germany, opinber heimsókn and all, en það eina sem hann talaði um á fréttamannafundinum var hversu mikið honum hlakkaði til grillveislunnar um kvöldið og að fá að bragða á svíninu.... Gott að vita að málefni líðandi stundar sitji ofarlega í hans huga. Ekki.

Svo áðan er við biðum eftir að West Wing myndi byrja-og nú fer fólk að halda að ég þrífist á öllu sem pólitískt er, sem er not the case really, hef einfaldlega gaman af þættinum-þá byrjuðum við að horfa á þátt sem heitir Bush Climate of Fear. Það er hægt að lesa úr titli þessa þáttar um hvað hann er nokkurn veginn en ég skal koma með einfalda og stutta útskýringu. Málið er að fyrir kosningarnar 2004, var þaggað niður í vísindamönnum er unnu að rannsóknarskýrslu um global warming. Gárungar segja að hún hefði getað haft mikil áhrif á útkomu kosninganna en núna auðvitað kannast töffararnir í Hvíta kofanum ekkert við að hafa dregið úr skýrslunni eða beðið um (með tölvupósti) að vísindamennirnir myndu fresta útkomunni.
Arrg. Ég veit reyndar ekki af hverju þeir létu undan, en það tengist víst einhverju um að þeir fengu það í andlitið að skýrslan innihéldi alvarlega galla og svo framvegis.

Skilurðu pirringinn? Ég elska að fara til Bandaríkjanna, reyndar hef ég haldið mig mest við NY og nánasta umhverfi og ég VEIT að fólkið þar hatar trúðinn. Fólk er svo miður sín og hrætt um viðbrögð heimsins og ef ég er pirruð þá veit ég ekki hvernig þeim líður!






miðvikudagur, júlí 19, 2006

Varð svo forvitin að ég ákvað að kíkja á http://rockstar.msn.com/ og tjékka á hypinu sem það er. OK, er ENGINN Á móti sól fan og ekki mikið fyrir sveitaballatónlist yfir höfuð. En, must say, Magni er bara að gera ágæta hluti og fær fína dóma. Hann er jafnvel minnst rokkaralegastur enda er það ekki útlitið sem gerir fólk að söngvurum. Held samt að sumir þarna haldi það og first impression hjá mörgum voru eflaust wow þessi er hardcore rokkonnn! En svo þegar á sviðið er komið þá eru það ekkert húðflúrin sem góla.

Nei bara svona að fylgjast með. Hoho.

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Jei fengum "nýja" bílinn okkar í dag. Voða glöð með hann og vonum að hann endist okkur betur en hinn. Svo er hann svo sætur líka, já ég sagði sætur.... Svo spurði afi mig, ávallt hógvær og hæglátur, hvað bílinn hefði kostað. Ég svaraði og hann spurði þá tilbaka: ,,Af hverju kaupirðu svona ódýran bíl?"
En hjá okkur er þetta skref upp á við no doubt og fengum við góðan díl hjá frænda. Þess vegna var hann líka ódýrari en ella, en það verður langt þangað til við förum að kaupa glænýja sportjeppa, mjög langt þangað til ef einhvern tíma enda fáránleg fjárfesting-maður á náttlega ekkert að tala um bílakaup og fjárfestingar í sömu setningu. Segja má að bíllinn okkar fíni kosti það sama og aföll á nýjum bíl eftir ár. Að hugsa sér!

Annars styttist í útilegu-tónleika helgina og ekki laust við að smá spenningur sé að myndast á heimilinu. Elska þetta land og útilegur, og elska tónleika. Svo einfalt er það :)

sunnudagur, júlí 16, 2006

Ég á svo fyndna og skemmtilega fjölskyldu og sannfærðist ég endanlega um helgina að gleði og brandarafærni er svoooo erfðatengd að einhverfa er bara orðin spurning miðað við þessa uppgötvun. Reyndar er ég líka örugg um að einhverfan gangi í erfðum, þó svo að ekki sé búið að sanna það. Það er erfitt dæmi, því fyrst þarf að finna út nákvæmlega hvaðan einhverfan sprettur. Það er til dæmis eitt svona svæði í Cambridge að mig minnir, þar sem mörg tölvufyrirtæki eru með hvað á ég að segja, höfuðstöðvar. Þá er ég ekki að tala um fancy skrifstofurnar, því þær eru auðvitað í London, New York eða Sidney. Nei, þetta er staðurinn þar sem einskonar data inputting á sér stað. Þarna má finna langflesta á einu svæði sem eru einhverfir eða Asperger-sem er náttlega grein af einhverfu. Og hvað með það? Nú því þessir tölvusnillingar para sig saman, oft-fer eftir hversu einhverfir þeir eru. Svo eignast þau börn og voilá!

Allavega ekki það sem ég ætlaði upphaflega að skrifa um en núna nenni ég því varla. En jú við hittumst sem sagt öll fjölskyldan á föstudagskvöld með "smá" áfengi, heima hjá móður. Hún á náttlega the partysafest house in the world. Steinn á gólfum og steinn á borðum. En auðvitað var engin þörf á öryggi, en samt varð úr ótrúlega skemmtileg og löng kvöldstund, þar sem við dönsuðum, borðuðum snakk og lakkrís, drukkum og hlógum og töluðum hátt eins og fjölskyldumeðlimir mínir eru þekktir fyrir. Ekki nóg með það, þá voru amma og afi með í fjörinu til að ganga 3. Spurning um hressleika!!??

Ætla að láta okkur ganga til liðs við Stöð 2 og kaupa áskrift. Ég veit-grown up en hey ég verð að sjá hann Magna okkar. Grín.

Ef einhver á nokkuð gott sjónvarp sem ekkert pláss er fyrir þá er ég til í að geyma það eða kaupa fyrir slikk. Gamla Hitachi tækið er bara ekkert að gera sog, eða jú jú en samt ekki.

föstudagur, júlí 14, 2006

Gleymdi einu.
Þegar við komum heim í gær sáum við sýn sem ég hef barasta ekki séð síðan í Nam eða var það Amazon? Allavega, er við lögðum fallega station lánsbílnum okkar sá við valsa yfir götuna eitt stykki rottu. Fyrstu viðbörgð mín voru "oj" "gvöð" og "ég kúgast". En eftir smá stund og eftir að hafa fylgst með henni reyna að troða sér aftur heim-ofan í ræsið, fór ég að vorkenna greyinu. Frekar stór en samt kannski bara unglingsrotta og hafði hún greinilega orðið viðskila við án efa stóran systkinahóp. Hugsanlega leita þau nú hennar ákaft. Hún ráfaði þarna rammvillt en ég skildi við hana undir bíl við hliðina á blokkinni.
Nú, ég vil endilega meina að ég sé ekkert alltof grimm en ákvað að senda póst á meindýravarnir ríkisins og boy ó boy! Þeir eru ekkert að hangsa, svöruðu strax og nú býst ég við meindýravarnarhernum í götunni. Samviskubit? Já verð að viðurkenna það en hver vill hafa rottufaraldur í hverfinu sínu-auk þess eru kisurnar mínar vegetarians þannig að allar freistingar eru bara óþarfi. Slæmt karma? Ójá, en ég bæti það upp á annan hátt.

Annars hafa fréttir af Gaza átt stóran hluta af hugsunum mínum og nýti ég miðla netsins sem og CNN í Baðhúsinu til að fylgjast með. Ætlar þetta engan endi að taka!??!
Guð, gefðu mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Þetta er bænin mín, og þó svo að ég sé ekkert mikið trúuð þá er hún það samt og hefur alltaf verið.
*****

Á morgun fáum við nýja bílinn okkar, seinna í mánuðinum förum við út á land á Belle and Sebastian. Seinna verða svo tónleikar með Morrisey. Svo aðeins síðar Airwaves og í nóv Sufjan tónleikar. Vona að ég fái miða á Mr.Stevens en ef ekki ætla ég ekkert að verða brjáluð. Hehe, sjénsinn því ég vill fara á þá!

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Þekkir einhver einhvern sem er að losa sig við örbylgjuloftnet eða afruglara???? Langar svo að hafa Skjá 1, er búin að fá nóg af RÚV.....
Búin að standa við matinn frá Ítalíu, á mánudaginn "meatballs and macaroni"-familia recipe. B fékk svo afgangana daginn eftir og eins og með flestan ítalskan þá var hann enn betri daginn eftir. Nú svo kom Dísa frænka (frá NY) og við fjölskyldan borðuðum öll samana "baked ziti". Í kvöld er það svo "lasagne" en á morgun ætla ég að gera eitthvern sniðugan ítalskan kjúklingarétt.

Anyways, veit ég kem síðust með fréttirnar en Jeff Who? er bara snilldar band og Death before disco er ofsa góður afspilunar. Vantað svona taka-til-eldunar-tónlist áðan og þessi diskur fékk alveg fullt hús stiga!

mánudagur, júlí 10, 2006

Mikið er ég ánægð að Ítalía hafi fengið þessa reyndar ljótu gullstyttu. Ég verð að viðurkenna að það hlakkaði í mér þegar Zidane gékk útaf og framhjá styttunni, enda var þetta ljótt sem hann gerði. Heldur hann að hann sé tuddi? En ótrúlega skammarlegt að enda ferilinn langa með Frakklandi svona. Suss og svei, ætti að vera búinn að læra að hafa stjórn á skapi sínu-þó svo að hinn hafi sagt ,,mamma þín" eða eitthvað álíka. Skiptir engu, þetta var óþarfi hjá skallakappanum Zidane. Kannski hefði hann nú samt alveg mátt koma inn á til að taka á móti silfrinu, en reglur eru reglur. Vorkenndi samt smá sæta Trezeguet, þegr boltinn bara fór ekki inn-stöngin..og út. Æ hvað þetta var svekkjandi. Ohh. Fyrir hann ekki ítalíu, múahahhahaha.

Ætla að vera með ítalskan mat mán-fim í tilefni sigursins. Spaghetti, baked ziti, meatballs, vodka penne jafnvel. Jömmí! Eins gott að þeir unnu, kann ekkert að gera snigla. Og langar bara ekkert í.
***********
Já nei ég er ekkert búin að vera neitt svaðalega heppin síðustu tja vikuna eða svo. Byrjaði þegar ég týndi inneignarnótunni í Nakta apanu frá B, enda bara kvittun. Ég flippaði, leitaði í ruslinu og bókstaflega rústaði íbúðinni, enda týni ég aldrei neinu til frambúðar-er ótrúlega góð að finna hluti. En ekki nótuna, farin og grafin. Ótrúlega sár. Svo á föstudaginn fór ég með bílinn í söluskoðun í Brimborg því við ákváðum að vera ekkert að gera við hann fyrir kannski 200 kall. Ég fékk annan bíl að láni sem ég var að hugsa um að kaupa fyrir okkur. Fór svo til ömmu og afa og þangað hringdi söluráðgjafinn og tjáði mér að þeir myndu ekki láta mig fá mikið fyrir bílinn, það þyrfti að gera svo mikið við hann. En upphæðin var sjokkerandi og ég já fékk sem sagt sjokk. Hvað gera bændur þegar boðið er í allar rollurnar þeirra bara einn pottur af mjólk og eitt hangilæri? Ég bjallaði í frænda hjá Toyota alveg stjörf og hann varð soldið hissa að ég hafi farið í Brimborg. Náttlega sér um sína og sagði að hinir (Brimborg) segðu fólki oft svona, og sumir ábyggilega desperate að losna við bílana-láta þá fá þá fyrir slikk. Oh jæja. OK ég til frænda en fyrst að skila lánsbílnum og sækja greyið bílinn sem enginn vill. Á leiðinni, er ég var að keyra upp brekkuna framhjá Ingvari Helgasyni (best að nefna sem flest umboð hérna), keyrir einhver maður sem er að fara að beygja til vinstri úr gagnstæðri átt út á Ártúnsholt í veg fyrir mig. Greyið var bara ekkert að hugsa en ég var afar pirruð þar sem ég var á lánsbíl! Djö,ans, hel, ohhhhh. En þetta reddaðist, ég náttlega í 140% rétti og Brimborg græddi þarna bara sprautun á annars slæmt lakk bílsins. Alveg er ég viss um að allir gæjarnir hjá Brimborg sem sáu þegar við fylltum út tjónaskýrsluna, hafi haldið að "stelpan" hafi keyrt á "kallinn".

Nú ok, þetta er orðið langt. Ég fór upp í Toyota, fékk lánsbíl og svo verður bíllinn okkar tilbúinn í dag! Já við erum að fara að eignast annan golfinn okkar og ég riðja VW-inn minn. Og það á minni stuttu stuttu ævi.
Þetta átti sem sagt allt að gerast og nú er ég alveg næstum því komin á það að það eru engar tilviljanir, að allt sé ákveðið og eigi að gerast eins og það gerist. Ég veit, sagði um daginn annað en þessi dagur sýndi mér annað.

Til að toppa svo þennan skrýtna dag, fór B upp í Nakta apa og ég fékk nýja nótu-auðvitað er til trúandi og heilbrigt fók og þau mundu alveg eftir honum. Ohh knús! Er núna í nýju fínu fínu peysunni minni. Nakti apinn er milljón!

The end.

föstudagur, júlí 07, 2006

Ef maður vaknar klukkan 8 á föstudagmorgni í sumarfríi er SKYLDA að spila þetta lag; Vitalic and Linda Lamb-Bells. Soldið hátt líka :) Ef þú átt það ekki, reddaðu því!

Já og svo fann ég Manchild með Neneh Cherry-og ég kann ennþá textann! Pjönku nostalgía... :)
Þar sem skemmtilega og fallega fólkið í kringum mig hneykslaðist ekkert svo svaðalega ætla ég að halda smá áfram með þessu óvenju opinskáu blogg-tjáningu mína. Þegar ég var búin að skrifa þetta fyrir nokkrum dögum varð ég soldið smeyk. Ekki bara að hafa verið svona persónuleg heldur líka um hvað ég var að skrifa. Hef ekkert endilega verið að loka þetta inni en ég hef svona talað um þetta en ekki kannski nógu mikið útskýrt hvernig mér líður, bæði fyrir öðrum og einnig sjálfri mér. Það er satt að mér leið skringilega en svo betur, þó ekki fyrr en eftir smá tíma. Gat varla farið í tölvuna í smá tíma, en að loknum þeim tíma fann ég fyrir smá létti, svona ahhhh. En svo komu meiri vondar fréttir í gær, en fyrir utan þetta með hann föður minn-þ.e. stóra málið, þá koma svona auka áföll inn á milli. Þetta í gær kom eitt af þeim. Þetta er orðið svo lýjandi en málið er að ef hann væri dáinn þá gætum við syrgt hann en hann er það ekki og satt best að segja á ég ótrúlega erfitt með að skilja að hann hefur þolað svona lengi. Ég er auðvitað ekki að óskað þess að hann sé dáinn, en ég geri mér samt fulla grein fyrir því að hann kemur aldrei aftur, heill eins og hann var.

Ég er óendanlega heppin samt, hef verið hraust og flestir í kringum mig. Svo á ég svo frábæra vini og er sífellt að kynnast fleirum undraverðum persónum.

Lofa að segja brandara í næstu færslu.

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Held ég skelli mér á bílasölu á eftir. Vorkenni nú samt eiginlega kagganum en ekki eins mikið og ég er búin að fá nóg af honum....

Í framhaldi af charity færslunni hérna um daginn þá verð ég að henda því inn að daman á pósthúsin horfði afar undarlega á mig þegar ég rétti henni bréfin til forseta Indónesíu, dómsmálaráðherra Túnis, rússneska sambandsríkisins og forseta Afghanistan....Hvert af öðru skoðaði hún og ég er ekki frá því að munnurinn hafi opnast alltaf aðeins meira með hverju bréfi. Allt í einu var eins og hún væri ekki viss hvað hún héti og hvar hún væri. En hún hlýtur að vera vön þessu...

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Ég vakandi, seint-NEVER!

Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt en um daginn lærði ég ögn meira um strikamerki. Hvað þau í rauninni segja manni. Þetta er afar einfalt og þegar ég var búin að gúgla eins og sveittur hundur, upphófst skápaleikur. Það er, hvaðan koma vörurnar mínar. Og get ég sagt ykkur það að trélitirnir mínir koma frá Bretlandi! Hvert land er með sér code (hence enska nafnið bar code) og eru það fyrstu 3 stafirnir á strikamerkinu. Stundum stendur að vara sé til dæmis frá umm Palestínu en er ef strikamerkið er skoðað kemur varan í raun frá Ísrael og það viljum við ekki, háalvarlegt mál! Ég ætla ekki að læra þau öll utanbókar en hef síðuna bookmarked. Þessa hérna. Mæli með því að allir skoði þetta.

Á morgun er plan. Fyrst ætlum við Dröfn að fara á ströndina og fá smá vítamín í kroppinn. Prótein ehhh nei ekki við saman en D-vít og vel af því. Svo ætla ég upp í Brimborg og athuga hvort þeir vilji ekki taka bílinn minn og láta mig fá einhver annan sniðugan í staðinn. Er spennt yfir þessu enda algerlega búin að fá æluna yfir hinum. Svo ætla ég að bruna í Keflavík á ball...grín, að sækja mömmu en hún mun koma frá Helsinki. Jei kannski fæ ég saltpillur. Ef tími gefst, þá ætla ég að reyna að kaupa gardínur í Ikea þar sem uhumm ég föndraði óvart hinar næstum í burtu og ef það gefst enn meiri tími ætla ég að kíkja með litluna til Dagfinns.

Hey þá man ég eitt fyndið sem gerðist í síðustu viku. Ruslastrákarnir komu og allt í einu fóru þeir að leika við Gný og litluna í glugganum. Svo tók einn eftir því að hún væri rangeygð. Og þá hópuðust þeir allir að glugganum. Ég stóð á bakvið í kasti en þeir vissu ekkert af mér. Fór að hugsa, ég hef bara aldrei séð kött áður sem er rangeygður, eða bara eitthvað annað dýr! Hún er bara sæt baun.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Er soldið andvaka núna. Kannski af því að ég er í fríi en líka út af öðru. Hef lengi velt því fyrir mér hvort ég eigi að skrifa þetta hérna, hvort það sé of persónulegt og viðkvæmt en eins klisjulega og það kann að koma út þá held ég að ég hafi gott af því. Alls ekki af því að einhver gæti lesið þetta og hugsað "æ oh" eða "greyið", heldur kannski til að henda því út úr hausnum á mér. Þá kannski útskýrir þetta ýmislegt fyrir fólki. Ég veit það ekki en ætla að láta mig hafa það, fólk hefur stigið stærri og lengri skref en þetta þannig að þetta er í raun ekkert svo mikið mál. Sumir kannski hneykslast við þetta. Það er líka allt í lagi, þetta er mitt. Það er tvennt og ég ætla að athuga þegar ég er komin áleiðis hvort ég skrifi um bæði. Þetta "tvennt" er nefnilega það sem að ég held hefur haft aðeins meiri áhrif á mig en ég hef viðurkennt. En það er mannskemmandi að halda inni í sér hlutunum, þó svo að þeir sem standa mér næst viti svona nokkurn veginn hvað hefur verið í gangi. Kannski hneykslast ég bara og stroka þetta út.

Fyrir 15 árum var fjölskyldan mín allt að því normal, ég meina við gerðum fjölskyldulega hluti og í raun eyddum við t.d. meiri tíma að ferðast um okkar guðdómlega land en flestar aðrar fjölskyldur. Fyrir 22 árum vorum við ekki svo eðlileg en pabbi minn hefur frá unglingsaldri glímt við landsþekktan og afar algengan sjúkdóm, alkóhólisma. Frá því um það bil fyrir 20 árum og þangað til 2002 var allt, tja ekki kannski í ljúfa löð en svona ástandið var þurrt eftir mörg hræðileg ár. Aldrei var hann vondur, bara ofsalega veikur maður. En svo þessi 16 ár eða svo stóð hann sig vel. Alveg þurr af öllu. Ég átti alltaf fínt samband við hann nema kannski á unglingsárunum, en er það ekki oft svo? Hann átti hinsvegar ofsalega náið samband við litlu systur sem var gott. Af því hann er ekkert vondur maður. Öll þessi ár voru foreldrar mínir giftir en það reyndi svo sannarlega á bandið. Ef mamma væri ekki eins og hún er, værum við sennilega á Kleppi. Hún vann eins og brjálæðingur og stundaði skóla. Reyndar vann pabbi líka alltaf. Síðan árið 2002 kom ég heim á klakann í sumarfrí. Seint um kvöld lenti ég og sat í smástund með pabba inni í eldhúsi. Það er svo fyndið að ég heyrði ekki fyrst eða tók ekki eftir "kvizz" hljóðinu þegar hann opnaði bjórinn. En svo allt í einu fattaði ég, og hnén á mér lömuðust. Fyrsta reaction var, jú þú verður að fá að prófa þetta og bla bla. En svo þegar leið á fríið, sá ég í hvað stefndi. Síðan þá veit ég ekki nákvæma tímaröð en þessi tími hefur verið hreinasta helvíti fyrir okkur öll. Fyrir ári ákvað mamma að skilja, hún varð að bjarga sinni eigin geðheilsu, og okkar í raun líka. Í alanon er líka sagt að þú getur ekki hugsað um aðra eins og t.d. börnin þín nema hugsa um þig fyrst. Og mikið ofsalega hlýtur að vera erfitt að skilja við einhvern sem maður elskar. Heimilslífið var orið brenglað enda enginn leikur að búa með neytanda. Fyrir rúmu ári var henni sagt af ráðgjafa að hann myndi ekki halda út í neyslu lengur en ár. Það er komið rúmt ár. Ég hef alltaf verið sterka systkinið enda elst og ég er ekkert aum, ég bara höndla að ég held, ekki að hitta hann. Ég sá hann síðast í haust, bara rétt aðeins og þá bjó hann enn heima. Mér finnst ég næstum búin að missa hann, eiginlega ekki næstum heldur alveg. Hef ekkert grátið neitt rosalega mikið út af þessu en þetta er farið að éta soldið innan úr mér. Mitt trick er að vera upptekin, en inn á milli hrynur þetta yfir mig. Ég verð svo ofsalega reið, sár og sorgmædd að ég held stundum að ég sé að fara yfirum. Að einhver vilji eyða sínum síðustu árum með nál í handleggnum heldur en fjölskyldu sinni er mér óráðin gáta. En ég veit innst inni að þetta er illur sjúkdómur sem hefur étið hann upp.
Og ég get ekki gert neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Hérna kemur svo soldið brenglað. Frá því í fyrra hefur mig langað til að segja honum eitt, einhver þráhyggja að þurfa að segja honum þetta en ég geri það ekki núna, það er bara alltof seint og ekkert víst að hann myndi skilja þetta. Í mörg ár eða þangað til í fyrra í rauninni, hef ég glímt við ægilega skemmtilegan átröskunarsjúkdóm. Þegar ég bjó úti gat ég svo auðveldlega falið þetta og ástandið var orðið vægast sagt hræðilegt. Meðleigjendur mínir fóru að taka eftir svo hröðu þyngdartapi að þeir stóðu ráðalausir fyrir framan mig. Þegar yfirlið í miðjum kennslustundum voru orðin mjög tíð var ég send af vinnunni í rannsókn. Ég stakk af og áfram hélt feluleikurinn. Þegar ég flutti aftur heim og með allt í gangi í sambandi við pabba ákvað ég að gera eitthvað. Í rauninni gerði ég ekkert nema segja nokkrum vinkonum frá þessu og þar með var feluleikurinn ónýtur. Ég fór að sjá að ég gæti hugsanlega ekkert komið neitt vel út úr þessu og jafnvel orðið enn meiri byrði á mömmu. Engan veginn til í það. Síðan þá hefur verið erfitt. Allir sem sjá mig hafa væntanlega séð breytinguna á mér. Og það sem meira er, ég hef orðið svo sjúklega hrædd við, þangað til nýlega, að allir kúrar eða átök eða allt það, muni henda mér í einhverja megrunar þráhyggju og að ég fari aftur ofan í klósettið. Ég vildi óska að ég gæti verið svona fyrirlesari um þetta, víti til varnaðar thing, en sem betur fer hefur orðið smá vakning hérlendis. Eftir að ég vaknaði til lífsins hafa ýmis skelfileg áhyggjuefni ásótt mig en ég vinn úr þeim. Það besta sem ég gerði var að segja frá þessu og svo með tímanum er ég að læra að ég er ekkert gölluð vara!

There. Story of my life.

mánudagur, júlí 03, 2006

Held ég sé komin með bakteríuna! Er útilegu, tjald, drullusvaðssjúk! Fékk gæsahúð þegar ég sá fréttamyndir af Hróarskeldu. Þess vegna spyr ég hvenær er næsta útilega og hvar? Og annað, fer einhver á Borgarfjörð Eystri á Belle and Sebastian? Koma svo peeps. Er allavega búin að plana ýmislegt eða svona nóta hjá mér t.d. hlýrri sokka, söngvabók og instant kaffi. En þú kúkalabbi?
Right. Helgin var alveg fullt skemmtilegt enda var henni eytt í ofsa skemmtilegum félagsskap einhvers staðar langt í burtu. Takk takk takk fyrir mig. Ég er líka komin í blótbann eða svona way dirty speaking, en það er eitthvað meira en skrýtið í gangi eftir nokkra. Why?

Varð soldið súr að fá háan reikning frá RÚV áðan. Horfum ekkert á þessa einu stöð sem við erum með og erum ekki með útvarp. Ef það væru fleiri skemmtilegir þættir, t.d. matreiðsluþættir, breskir sakamála og þess háttar, myndi ég ekki alltaf fara í fýlu. En það er of lítið af góðu efni til að koma í veg fyrir skeifuna. Ohh farin að borga. Damn. Oh djö blót. Æ.